Í samtali við Elínu Hall...

…leikkonu og lagahöfund um samstarfið við Blue Lagoon Skincare. 

Elín Sif Halldórsdóttir, betur þekkt sem Elín Hall, er flestum landsmönnum kunnug sem leik- og söngkona, en sjálf skilgreinir hún sig fyrst og fremst sem sögumann.

Elín hlaut nýverið Edduverðlaun sem leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt sem Una í kvikmyndinni Ljósbrot. Fyrir sama hlutverk var hún einnig heiðruð á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago 2024. Þá fór hún með hlutverk ungrar Vigdísar Finnbogadóttur í sjónvarpsþáttunum Vigdís, og hlaut viðurkenningu sem rísandi stjarna (EFP Shooting Star) á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2025.

Elín er jafnframt lagahöfundur og textasmiður, hefur gefið út nokkrar plötur og nú síðast EP plötu í janúar 2025 með upptökum af lifandi flutningi.

Elín er nú í tökum á nýju verkefni úti á landi en gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum um húðrútínuna sína og hlutverk hennar í hversdagsleikanum.

Hvaða þýðingu hefur húðumhirða fyrir þig?

„Ég hef alltaf notið þess að dunda mér inni á baði og stalst mikið í snyrtivörur heima hjá ömmum mínum og frænkum sem barn. Núna á ég mínar eigin vel völdu vörur en húðrútínan mín er eins og loforð inn í daginn um að ég muni passa upp á sjálfa mig. Bara það að eiga stund ein með sjálfri mér tvisvar á dag hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir mig og hefur orðið að heilagri rútínu.“

„Í dag heillast ég af einfaldleika og passa að nota vörur með sem fæstum innihaldsefnum. Þegar ég er í tökum þá er mikilvægt fyrir mig að nota vörur sem róa húðina og gefa henni nægan raka en leyfa henni á sama tíma að anda.“

Geturðu lýst húðrútínunni þinni?

„Að þvo mér um andlitið og nota rakakrem á kvöldin er algjört „möst“, sama í hvaða ástandi ég er. Ég elska Mineral Mask og nota hann annað hvert kvöld á meðan ég er í tökum þar sem þungur farði er notaður í sminkinu og það þarf að setja á mig gervi.

Ég nota svo BL+ The Serum og BL+ Eye Serum daglega og finn gríðarlegan mun á áferðinni á húðinni eftir að ég byrjaði að nota vörurnar.“

Hvernig er þín upplifun að taka þátt í 30 ára afmælisherferð Blue Lagoon Skincare?

„Ég held að Bláa Lónið hafi spilað hlutverk í lífi margra Íslendinga. Ég man eftir að hafa farið í Bláa Lónið í fyrsta skipti þegar ég var fimm ára, ég náði ekki niður á botn og fannst þetta pínu ógnvekjandi. Pabbi fann svo fyrir mig flotdýnu og ýtti mér um á henni, þá var þetta orðið að algjörum lúxus.

Undanfarið hef ég þurft að finna leiðir til að slaka á og fyrir mér er Bláa Lónið dásamlegur staður til að finna algjöra ró og frið. Mér finnst mikill heiður að vinna með vörumerki sem er jafn gróið inn í þjóðarsálina og er tákn um menningu sem gerir landið okkar einstakt. Upplifunin í tökunni var góð og teymið var frábært, það var ótrúlega róandi að koma í Bláa Lónið heilan dag og búa til eitthvað fallegt með þessum fagmönnum.“ 

„Það var augnablik þar sem ég lá í Lóninu og hugsaði með mér að það væri pínu galið að þetta væri hluti af vinnunni minni!“

Nú er Ísland þekkt fyrir stórbrotna náttúru, er eitthvað við Ísland sem veitir þér sérstakan innblástur?

„Íslensk náttúra er svo ótrúlega vægðarlaus og áköf. Hún getur verið óútreiknanleg og stórhættuleg, en samt svo dásamlega falleg. Íslenska þjóðin er hins vegar þekkt fyrir afslappað hugarfar og húmor og þessar andstæður veita mér innblástur. Náttúra Íslands er síbreytileg og við höfum lært að aðlaga okkur að henni, það er margt sem hún getur kennt okkur um lífið og það að vera manneskja.

Hvað laðar þig að þeim hlutverkum sem þú velur?

„Ég brenn aðallega fyrir sögum sem snerta við mér. Að fá að segja sögur þeirra kvenna sem ég hef fengið að túlka hefur verið mikill heiður. Ég reyni að nálgast það af mikilli næmni og heiðarleika. Ég er heppin að hafa fengið að leika hlutverk sem ég hafði trú á og sem höfðu einnig burði til að hreyfa við áhorfendum. Töfrarnir sem maður vill kalla fram eru fólgnir í að fólk geti samsamað sig með sögunni og speglað eigið líf í því sem maður gerir á skjánum.“ 

„Þættirnir um Vigdísi voru tækifæri sem ég hefði aldrei geta hafnað. Það var draumur að fá að túlka baksögu frumkvöðulsins Vigdísar Finnbogadóttur. Ég var samt alltaf meðvituð um að ég var ekki bara að túlka hennar sögu, heldur sögu heillar kynslóðar. Sögu kvenna sem þurftu að brjótast í gegnum veggi og hindranir til að fá að upplifa ýmislegt sem ég og mín kynslóð tökum sem sjálfsögðum hlut. Ég fylltist svo gífurlegu þakklæti, ekki bara í garð Vigdísar heldur til amma minna og langamma þegar ég las handritið. Ég vona að sagan hafi haft sömu áhrif á aðra sem horfðu á þættina.“ 

Kynntu þér uppáhalds vörur Elínar:

3 fyrir 2
3 fyrir 2
 
Close dialog

Blue Lagoon Skincare

Fáðu 15% afslátt af stökum vörum með fyrstu pöntun 

Please select your home region