Í samtali við Elínu Hall...
…leikkonu og lagahöfund um samstarfið við Blue Lagoon Skincare.
Elín Sif Halldórsdóttir, betur þekkt sem Elín Hall, er flestum landsmönnum kunnug sem leik- og söngkona, en sjálf skilgreinir hún sig fyrst og fremst sem sögumann.
Elín hlaut nýverið Edduverðlaun sem leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt sem Una í kvikmyndinni Ljósbrot. Fyrir sama hlutverk var hún einnig heiðruð á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago 2024. Þá fór hún með hlutverk ungrar Vigdísar Finnbogadóttur í sjónvarpsþáttunum Vigdís, og hlaut viðurkenningu sem rísandi stjarna (EFP Shooting Star) á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2025.
Elín er jafnframt lagahöfundur og textasmiður, hefur gefið út nokkrar plötur og nú síðast EP plötu í janúar 2025 með upptökum af lifandi flutningi.
Elín er nú í tökum á nýju verkefni úti á landi en gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum um húðrútínuna sína og hlutverk hennar í hversdagsleikanum.
Hvernig er þín upplifun að taka þátt í 30 ára afmælisherferð Blue Lagoon Skincare?
„Ég held að Bláa Lónið hafi spilað hlutverk í lífi margra Íslendinga. Ég man eftir að hafa farið í Bláa Lónið í fyrsta skipti þegar ég var fimm ára, ég náði ekki niður á botn og fannst þetta pínu ógnvekjandi. Pabbi fann svo fyrir mig flotdýnu og ýtti mér um á henni, þá var þetta orðið að algjörum lúxus.
Undanfarið hef ég þurft að finna leiðir til að slaka á og fyrir mér er Bláa Lónið dásamlegur staður til að finna algjöra ró og frið. Mér finnst mikill heiður að vinna með vörumerki sem er jafn gróið inn í þjóðarsálina og er tákn um menningu sem gerir landið okkar einstakt. Upplifunin í tökunni var góð og teymið var frábært, það var ótrúlega róandi að koma í Bláa Lónið heilan dag og búa til eitthvað fallegt með þessum fagmönnum.“
Nú er Ísland þekkt fyrir stórbrotna náttúru, er eitthvað við Ísland sem veitir þér sérstakan innblástur?
„Íslensk náttúra er svo ótrúlega vægðarlaus og áköf. Hún getur verið óútreiknanleg og stórhættuleg, en samt svo dásamlega falleg. Íslenska þjóðin er hins vegar þekkt fyrir afslappað hugarfar og húmor og þessar andstæður veita mér innblástur. Náttúra Íslands er síbreytileg og við höfum lært að aðlaga okkur að henni, það er margt sem hún getur kennt okkur um lífið og það að vera manneskja.