Hátíðarklúturinn fylgir öllum pöntunum 18.000 kr og yfir

Undur í hverjum dropa

Töfrandi efni sem lýsir okkur einstaklega vel

Iðnhönnuðurinn Sigga Heimis er heilluð af möguleikum og fegurð glers og að hennar dómi má lýsa lífvirku vatni Bláa Lónsins með sömu hugtökum. Hún segir hér frá innblæstrinum að baki innsetningunni „Undur í hverjum dropa“ sem prýðir útstillingargluggana í öllum verslunum Blue Lagoon Skincare yfir aðventu og jól.

Óhætt er að segja að jólaherferðin „Undur í hverjum dropa" færi okkur bæði smærri glaðninga og stærri dýrgripi í kringum jólin. Allt fléttast saman í ljómandi fegurð sem gaman er að deila með vinum og ástvinum. Það er hinn kunni iðn- og vöruhönnuður Sigga Heimis sem blæs hátíðlegu lífi í útstillinguna, en hún fékk frjálsar hendur til að túlka hugmyndina „Undur í hverjum dropa" yfir í stóra innsetningu. Útkoman er röð af ægifögrum glerdropum sem endurspegla bæði töfra jólahátíðarinnar og íslenska náttúrufegurð – og innblásturinn er hinn lífvirki jarðsjór Bláa Lónsins. Hönnuðurinn veitir okkur innsýn í sköpun sína og aðferðafræði.

Hvernig lá leið þín inn í heim glerhönnunar?

Ég hef á ferli mínum unnið með alls kyns efni og gert mjög ólíka hluti. Það var síðan í vinnusmiðju fyrir mörgum árum að ég kynntist hinu bandaríska Corning Museum of Glass og var svo heppin í kjölfarið að fá boð um að koma og vinna með þeim í Miami. Upp frá því varð ekki aftur snúið og nú má eiginlega segja að gler sé eftirlætis efnið mitt.

Hvers vegna fannst þér gler passa í akkúrat þetta verkefni?

Þegar maður horfir á sjálft vatnið í Bláa Lóninu og reynir að ímynda sér það í föstu formi kemur gler fljótt upp í hugann, því vatnið er í senn gegnsætt og bláleitt – það er þessi kristalsblái litur sem allir þekkja og muna. Við nánari skoðun kemur síðan í ljós að gler samanstendur að 70% úr kísil, sem er einmitt eitt lykilinnihaldsefnið í húðvörum Blue Lagoon Skincare. Það þurfti því ekki langan tíma til þess að detta niður á þessa leið, mér fannst hún strax mjög náttúruleg og ég veit satt að segja ekki hvernig ég hefði getað gert þetta öðruvísi.

Hvað er svona heillandi og hugvekjandi við gler?

Gler er mjög fjölhæft og fjölnota. Það býður upp á ótal litbrigði og margvíslega áferð – þú hefur alveg ótrúlega vítt val. En það fallegasta er samt hvað það er gegnsætt og hvernig það endurkastar ljósi og birtu – þar liggja töfrarnir. Ég elska allt ferlið við að blása gler, sem er aðferðin sem við notuðum í þetta verk. Það fylgir því ákveðin ró að blása gler og nánast hægt að komast í núvitundarvímu við það.

Hvernig notaðirðu yfirskriftina „Undur í hverjum dropa" í þessu verkefni?

Mig langaði að upphefja þetta ótrúlega magnaða og fræga efni, vatn Bláa Lónsins, sem er þekkt fyrir sinn einstaka lit og húðstyrkjandi áhrif, og túlka það yfir í umfangsmikið listaverk.

Geturðu frætt okkur aðeins meira um söguna sem felst í dropunum?

Vatnsdropar tengjast okkur hér á Íslandi með margvíslegum og sterkum hætti. Auðvitað eru vatnsdropar alls staðar, en hér búum við í miklu návígi við þá, verandi eyja úti í miðju Atlantshafi. Auk þess höfum við alls konar gerðir af ofankomu; rigningu og snjó í öllu formi, til viðbótar við alla fossana og alla jöklana, þannig að vatnsdropar segja í mínum huga mjög íslenska sögu, en líka mjög mannlega, þar sem líkamar okkar eru næstum að tveimur þriðju hlutar vatn.

Droparnir hafa allir nokkuð sérstætt lag, var það með ráðum gert?

Já. Ég tók með í reikninginn að það er náttúrlega stöðugt rok hér á landi – í öllu falli það mikið að fæstir leggja á sig að reyna að nota regnhlíf. Þess vegna var hugmyndin að láta dropana hafa séríslenskt yfirbragð, líkt og vindurinn væri að blása á þá. Svo vildum við auðvitað að þeir vísuðu beint í Blue Lagoon Skincare og þess vegna svífur bláleiti einkennisliturinn yfir vötnum.

Geturðu sagt okkur örlítið frá ferlinu að baki innsetningunni?

Ég er sjálf ekki glerblásari þannig að ég þurfti að finna einhvern mjög góðan og vanan blásara. Hann fann ég í Anders Vange, sem er stofnandi Reykjavík Glass. Ég ber ómælda virðingu fyrir handverkinu og hæfileikunum sem liggja að baki þessari merkilegu tækni, þetta eru beinlínis töframenn og án góðs samstarfsfólks hefðu droparnir aldrei orðið til.

Hvað aðferðina snertir notuðum við gamla og í raun einfalda tækni. Að blása gler er að sumu leyti eins og að blása upp blöðru, sem er samt mikil einföldun því það er svo margt sem gerist á undan, á meðan og á eftir. Fljótandi gler er auðvitað brennandi heitt og þess vegna veltur allt mikið á réttum tímasetningum. Það þarf að taka glerið upp við nákvæmlega rétt hitastig, bíða, sækja meira, og svo blása það til. Síðan þarftu að bíða þangað til þú getur formað glerið. Í lokin, þegar þú hefur náð því formi sem þú sóttist eftir – í þessu tilviki dropum – seturðu munina inn í hitastilltan skáp þar sem þeir kólna. Þannig að þetta virðist einfalt þegar þú sérð hlutina fullgerða, og þetta hljómar líka einfalt, en samt er ekkert einfalt við þetta. Þetta er viðkvæmt ferli og það þarf að hafa góð tök á bæði hita og tíma.

Koma þolinmæði og nákvæmni kannski líka við sögu í verkefni eins og þessu? 

Já, það þarf sannarlega skerf af hvoru tveggja, þótt ég sé reyndar ekkert sérlega þolinmóð manneskja sjálf. Þess vegna er einmitt gott fyrir mig að vinna með einhverjum eins og Anders sem er svo stóískur að hann er eins og sniðinn fyrir glerblástur. Á hinn bóginn legg ég sjálf mikið upp úr nákvæmni og myndi aldrei skila af mér verkefni sem ég er ekki fullkomlega ánægð með. Þess vegna tengi ég mjög sterkt við nákvæmnishlið þessarar vinnu – þolinmæðin er á snærum annarra.

Hvaða merkingu hefur það fyrir þig að taka þátt í verkefni eins og þessu fyrir Blue Lagoon Skincare?

Ég er mjög stolt af því að hafa unnið þetta verk fyrir Blue Lagoon Skincare og ástæðan er bæði augljós og tvíþætt, ég er íslensk og ég elska gler. En ég er líka hreykin vegna þess að útkoman er alvöru verk. Mér finnst frábært að við séum að vinna þetta hér á landi, og ekki síst að við notum endurunnið gler, þannig að ég er ánægð með verkið á alla enda og kanta.

Ef þú ættir að lýsa innsetningunni með einu orði, hvert væri það?

Það er erfitt að læsa allt verkið í eitt orð en ég held þó að „ekta“ kæmist nálægt því. Í þessum heimi sem við búum í nú til dags er svo ótal margt á sveimi sem er ekki ekta, ekki skýrt, ekki heiðarlegt, og þess vegna vona ég að þessi innsetning færi fólki tilfinningu fyrir gagnsæi, jákvæðni og ákveðnu tímaleysi – að það skapi ekta upplifun sem er líka full af töfrum og undrun.

Uppboð á verkinu.